Héraðsskólar

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 12:09:09 (6670)


     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli. Eins og hún sagði var mikið rætt á síðasta þingi um málefni Héraðsskólans í Reykjanesi. Ég hjó eftir því í svari hæstv. menntmrh. áðan þegar hann nefndi þá skóla sem væru starfandi að þeir eru á Austurlandi, Vesturlandi og Suðurlandi. Það er enginn á Norðurlandi og enginn á Vestfjörðum. Nú hefur verið talsverður samgangur á milli nemenda einmitt á Vestfjörðum og Norðurlandi þannig að mér finnst eins og þarna sé eyða í þessum héraðsskólamálum. Fyrirspyrjandi nefndi einnig sérstaklega að í framhaldi af því að skólinn í Reykjanesi var lagður niður var skólahald á Núpi einnig lagt niður. Hvernig var staðið að því þegar aðrir héraðsskólar sem hæstv. menntmrh. nefndi hér áðan voru lagðir niður? Þá fengu þeir um leið verkefni framhaldsskóla. Í gangi er nefnd sem á að finna starf fyrir Reykjanesskólann. Ég hef ekki heyrt um neitt slíkt fyrir Núpsskólann. Þarna er á báðum stöðun húsnæði sem ríkið á en er ekki notað til neinna hluta þannig að ég tel að menntmrh. þyrfti að svara því hvað fyrirhugað er með þetta húsnæði og hvort ekki er hægt að finna þessu húsnæði verðugt verkefni eins og annars staðar hefur verið gert.