Norræni fjárfestingarbankinn

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 14:38:37 (6700)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hef ég ekki skilið það rétt að áhugi norrænna þjóða, sem á sér auðvitað bæði menningarlegan og sögulegan bakgrunn á því að hjálpa Eystrasaltslöndunum til þess að reisa sín þjóðfélög úr þeirri rúst sem þau hafa verið í um allt of langan aldur, byggist á einhverjum hugsjónum um mannréttindi og virðingu fyrir mannslífum? Erum við ekki að reyna að hindra að upp komi staða eins og í Júgóslavíu? Ég hélt að það hlyti að vera einhver sérstök hugsun á bak við þessa aðstoð og m.a. fjárhagsaðstoð gegnum Norræna fjárfestingarbankann. Ég tel að það geti ekki verið óeðlilegir kostir að vilja líta til með því hvers konar þjóðfélag verði byggt þarna upp. Ég hef engan áhuga á að leggja fram fé til þess að koma á fót þjóðfélögum óréttlætis og ranglætis þarna í neinu landi.