Lokun meðferðarheimilis SÁÁ að Staðarfelli

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 15:57:19 (6861)

     Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegi forseti. Í tilefni af ummælum hv. þm. Önnu Ólafsdóttur Björnsson vil ég segja að það er út af fyrir sig allt í lagi að berja á heilbrrh. þegar hann á það skilið, en í þessu máli hefur hann sýnt að hann vill koma til móts við þarfir SÁÁ. Hann hefur lýst því yfir í umræðunum að hann hyggst nota næsta mánuð til þess að ræða við Samtök áhugamanna um áfengisvandann til þess að reyna að finna leiðir til að halda starfseminni á Staðarfelli úti.
    Ég er einn af þeim sem hef séð kraftaverkin gerast í kringum mig og innan minnar eigin fjölskyldu fyrir tilstilli SÁÁ. Ég held að þessi samtök hafi lyft grettistaki og ég held að ótrúlega margar fjölskyldur eigi hamingju sína undir starfsemi þessara samtaka. Ég verð að segja að ég finn mig knúinn til að spyrna við fótum þegar svo er málum komið hjá SÁÁ að nauðsynlegt sé að loka Staðarfelli. Hins vegar var ég eins og hæstv. heilbrrh. þeirrar skoðunar að samkomulag hefði náðst millum heilbrrn. og SÁÁ sem gerði það kleift að halda Staðarfelli opnu. Það kom fram í máli hæstv. heilbrrh. að til þess átti m.a. að draga úr starfsemi á ýmsum öðrum stöðum. Nú hefur komið í ljós að samtökin treysta sér ekki til þess og þá tel ég algerlega nauðsynlegt að viðræður eigi sér stað á milli forsvarsmanna SÁÁ og heilbrrh. Ég vænti þess auðvitað að hann muni eins og svo gjarnan áður sjá að það er að öllum líkindum sparnaður fyrir þjóðarbúið fólginn í því að hjálpa þeim til þess að halda Staðarfelli úti.
    Nú er það svo að á hverju einasta ári leita um það bil 2.000 einstaklingar ásjár vegna áfengisvandamáls. Um það bil þriðjungur þeirra eru sídrykkjumenn, menn sem eru illa farnir og eina haldreipi þeirra í hörðum heimi hefur verið Staðarfell. Staðreyndin er sú að mikilvægur þáttur í starfi SÁÁ er einmitt rekstur þessa meðferðarheimilis. Frá því að það tók til starfa í nóvember 1980 hafa um 400 sjúklingar á hverju ári farið þar í gegn eða hartnær 5.000 manns alls og þar er mjög hátt hlutfall endurkomusjúklinga. Þar er hin fræga víkingadeild og staðreyndin er sú að sennilega hefur engin önnur stofnun náð jafnmiklum árangri í meðferð þeirra og einmitt hún. Þess vegna vil ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir að hafa tekið svona á þessum málum og skora auðvitað á hann að sjá til þess að meðferðarheimilinu að Staðarfelli verði haldið opnu.