Lokun meðferðarheimilis SÁÁ að Staðarfelli

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 16:04:05 (6864)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Það er náttúrlega mjög einfaldur hlutur þegar menn standa frammi fyrir vandamálum að segja: Menn eiga bara að leysa það með peningum og meiri peningum. Vandinn er einfaldlega sá að heilbrrh. hefur ekki þá peninga og eins og allir vita er ríkissjóður ekki aflögufær. Hins vegar er sjálfsagt að skoða þessi mál eins og ég hef tekið fram. En ég ítreka það þegar upphaflega var rætt við SÁÁ um þær niðurskurðarhugmyndir sem voru í fjárlagafrv. eins og það var lagt fram um að lækka framlögin til SÁÁ um 35 millj. þá sögðust forsvarsmenn SÁÁ ekki sjá neinn annan kost miðað við þær fjárveitingar heldur en loka einni af stofnunum SÁÁ og þá sögðu þeir að vísu að óathuguðu máli að ef þeir neyddust til þess að loka einhverri stofnun SÁÁ þá mundu þeir sennilega loka Vík fremur heldur en Staðarfelli. Niðurstaðan varð síðan sú að Alþingi ákvað að veita samkvæmt minni tillögu og fjárln. 15 millj. til viðbótar til SÁÁ í þeirri trú að með því móti tækist að tryggja rekstur allra stofnana SÁÁ út árið, að vísu með einhverjum samdrætti hér og þar um takmarkaðan tíma. Sú ákvörðun stjórnar SÁÁ, sem tekin var 10. mars sl. um að loka Staðarfelli en auka í staðinn við umsvif annarra stofnana SÁÁ, kom mér á óvart eins og öðrum þingmönnum. Stjórnin hefur hins vegar gert mér grein fyrir ástæðum þeirrar ákvörðunar sinnar og ef menn hugsa sig um þá er það mjög eðlilegt vegna þess að stjórnin ber ábyrgð gagnvart félagasamtökunum sem hafa kosið hana. Stjórnin sér í mars að ef fram heldur sem horfir þá muni hún stefna í mikla skuldasöfnun á þessu ári og stjórnin taldi það ekki í samræmi við ábyrgð sína og tók því þá ákvörðun sem nefnd var. Hins vegar ítreka ég að ég mun í næsta mánuði reyna að ná samkomulagi við stjórn SÁÁ, ekki bara um árið 1993 heldur um frambúðarrekstur og frambúðarsamstarf heilbrrn. og SÁÁ. Ég tek það líka fram eins og hv. þm. Svavar Gestsson vék að að það hefur einnig orðið samkomulag við SÁÁ um að leysa ýmis önnur vandamál sem voru í samskiptum aðila.