Viðhaldsþörf ríkiseigna

156. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 11:23:14 (7059)


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda. Ég held að ég geti fullyrt að ríkisstjórnin hefur mikinn skilning á þeim viðhorfum einnig og þau hafa verið mjög til skoðunar, ekki síst í tengslum við hugsanlega kjarasamninga en viðræður um þá hafa farið fram þessa dagana. Á þessari stundu er ekki nákvæmlega vitað hvort af þeim verður, en svo kann að verða og vonandi verður af því jafnvel innan stundar.
    Ég vil einnig bæta við að fjmrn. hefur óskað eftir því við fagráðuneytin og þá einkum þau stærstu, menntmrn. annars vegar og heilbrrn. hins vegar, að gerð sé áætlun um viðgerðir og viðhald á húsum en eins og eðlilegt er er gífurlega mikill hluti húsakosts ríkisins á vegum þessara tveggja ráðuneyta. Það liggja fyrir a.m.k. frá öðru ráðuneytinu slíkar áætlanir og ég hygg að hitt ráðuneytið muni geta skilað inn slíkum áætlunum innan tíðar og þær verða þá auðvitað hafðar til hliðsjónar þegar ákveðið verður í hvaða röð ríkið mun beita áhrifum sínum til þess að hægt verði að halda þessu húsnæði við með viðhlítandi hætti.