Framleiðsla og sala á búvörum

157. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 11:52:55 (7066)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Svo að það liggi alveg ljóst fyrir, þá hefur það verið mín skoðun og ég hef mælt fyrir henni þar sem ég hef haft tækifæri til þess að það beri að taka sérstakt tillit til þeirra svæða sem eiga mest sitt undir sauðfjárrækt. Í umfjöllun minni um málið hef hins vegar ég komist að því að það er afar erfitt mál í framkvæmd en það þýðir ekki að menn eigi að gefast upp við að finna leiðir til þess.
    Hæstv. ráðherra svaraði hins vegar ekki spurningu minni varðandi það hvort beingreiðslur til bænda sem stunduðu landgræðslu og hættu sauðfjárframleiðslu, ættu að teljast sem hluti af því fjárframlagi sem, samkvæmt bókun 6 í viðauka II búvörusamningsins upp á 2 milljarða á ákveðnu árabili, átti að renna til landgræðslu og skógræktar. Þeirri spurningu er enn ósvarað en skiptir í mínum huga verulega miklu máli að það liggi ljóst fyrir hver hugsun þar sé á bak við.