Sala m/s Heklu

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 13:41:17 (7232)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Í skýrslu sem nýlega kom fram um framkvæmd fjárlaga fyrir árið 1992 segir að því sem næst sé lokið að selja eignir Skipaútgerðar ríkisins, en jafnframt að í marsmánuði núna 1993 hafi m/s Hekla verið seld fyrir 80 millj. kr. Síðan segir: ,,Ljóst er að sala eigna Skipaútgerðarinnar muni ekki nægja til að greiða upp allar áhvílandi skuldir útgerðarinnar, er hún hættir rekstri og má ætla að þar vanti 30--50 millj. kr.``
    Þegar rætt var um stofnun hlutafélags um rekstur Skipaútgerðarinnar í fyrra, þá kom fram að undirbúningshópurinn gerði m.a. tillögur um að kaupa þetta skip fyrir 120 millj. kr. Getur hæstv. samgrh. svarað því hvers vegna því tilboði sem gert var í fyrra upp á 120 millj. kr. var ekki tekið en nú er skipið selt fyrir 80 millj. kr.