Rannsóknarnefnd til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 14:08:28 (7256)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hér hafa þau tíðindi gerst að tveir einstaklingar í þessu þjóðfélagi hafa verið bornir nokkuð þungum sökum. Annars vegar kvikmyndagerðarmaðurinn Hrafn Gunnlaugsson og hins vegar hæstv. menntmrh. Kvikmyndagerðarmaðurinn leitaði eftir því að hans æra yrði hreinsuð og óskaði eftir því að Ríkisendurskoðun færi yfir þau mál sem að honum sneru fjárhagslegs eðlis. Ég er hlynntur því að það verði gert. Hinn einstaklingurinn, sem jafnframt er ráðherra í ríkisstjórninni, óskar ekki eftir hreinsun. Þingið telur heldur ekki rétt, ef það samþykkir þetta, að hans æra verði hreinsuð eða tilraun gerð til þess. Það segir allmikið um Alþingi Íslendinga ef þannig verður að verki staðið og þessi tillaga samþykkt sem hér liggur fyrir. Ég segi nei.