Ráðning framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 14:41:22 (7273)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hæstv. utanrrh. gerði rétt í því að hlýða á mál mitt núna. Ég hef aldrei orðið vitni að því áður á Alþingi Íslendinga að ráðherra geri hróp að forseta sem situr í forsetastóli og stjórnar þinginu. Ég hef aldrei orðið vitni að slíku áður. Það er vaðið inn úr hliðarsölum og öskrað á forseta: ,,Er þetta um gæslu þingskapa?`` Er það sóma þingsins vegna sem ráðherrar temja sér slíkt? Ég hef oft séð það að ráðherrar hafa gengið til forseta, verið að gera athugasemdir við dagskrá og ræða við þá um það að þeirra mál virðist ekki hafa náð jafnhratt fram og þeir hafi vonað og snúið reiðir frá forsetastóli. En að það gerist hér á Alþingi Íslendinga að ráðherra leyfi sér það að koma vaðandi úr hliðarsal inn í þingsalinn og gera hróp að forseta --- ég vona það sóma þingsins vegna að ég verði ekki aftur fyrir þeirri reynslu hér í sölum Alþingis.