Lyfjalög

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 19:57:05 (7310)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil nú þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör --- hann má eiga það, eins og hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir sagði hér áðan, að hann reynir yfirleitt að svara öllum sem bera spurningar fram.
    Hins vegar, af því hann hafði áhyggjur af því eða var sannfærður um það öllu heldur að ég hefði verið ein af þeim sem hefði mótmælt mjólkureinkasölunni þá get ég fullvissað hann um að svo var ekki. Ég átti þá þátt í mörgum ályktunum og ef hann grefur það upp þá getur hann örugglega séð undirskrift mína undir það frá ýmsum hagsmunasamtökum kvenna þar sem þess var krafist að mjólkursalan væri frjálsari. En það sýnir einmitt hvað hæstv. ráðherra dregur stundum rangar ályktanir af ýmsu sem hann er að fjalla um.
    Hann fullyrti áðan að það þyrfti ekki endilega að vera hátt lyfjaverð á Íslandi. Ég er alveg sammála honum í því en ég er ekki sammála honum í því að það sé rétt hjá honum að telja það fram að í Þýskalandi sé lægra verð en á Íslandi og það sé vegna þess að hann hafi skoðað það með því að bera saman ákveðna körfu af lyfjum. Það er ekkert sem segir mér hvað var í þeirri körfu og hvaða lyf hafa hér verið borin saman þannig að ég tel ekki hægt að svara þessu sem einhverri röksemd.
    Mér fannst það líka athyglisvert í svari hans að hann sagði að lyf verða kannski dýrari á einum stað en öðrum. Og það er einmitt það sem við höfum verið að gagnrýna, að lyfin verða alveg örugglega dýrari á einum stað en öðrum og það er mjög hætt við því að það verði á landsbyggðinni. Ekki vegna þess að það sé í gangi í dag sérstök jöfnun, það er mér alveg fullkunnugt um, hins vegar er ákveðið fastagjald á afgreiðslu lyfja, ákveðið svokallað afgreiðslugjald, sem er það sama hjá öllum apótekum.