Lyfjalög

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 19:59:19 (7311)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Menn geta orðað sömu hugsun með ýmsum hætti. Menn kannast við þá frægu samlíkingu á bjartsýnismanni og svartsýnismanni að annar segir að glasið sé hálftómt en hinn segir að glasið sé hálffullt, og eiga þá báðir við það sama. Hv. þm. segir að þetta geti leitt til þess að lyf verði dýrari á einum stað en öðrum, ég segi hins vegar að þetta geti leitt til þess að lyf verði ódýrari á einum stað en öðrum. Það er munurinn aftur á svartsýnismanni og bjartsýnismanni og ég hef ekkert fleira um það að segja.
    Hins vegar er ekki gert ráð fyrir því í þessu frv. að lyfin verði nokkurs staðar dýrari en þau eru núna, heldur að þau geti orðið ódýrari vonandi á sem allra flestum stöðum.