Forgangslisti um afgreiðslu mála

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 23:52:27 (7361)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Forseti væntir þess að það verði ekki farið að ræða hér um einhvern væntanlegan forgangslista hæstv. ríkisstjórnar undir liðnum ,,um gæslu þingskapa``. Það er mál sem er fjallað um á vettvangi þingflokksformanna og forseta og verður gert með hefðbundnum hætti innan tíðar eins og forseti sagði hér áðan. Forseti hefur nú þegar kallað eftir þessum forgangslista og veit að hann mun sjá dagsins ljós innan skamms og á þessum tíma sem venja er rétt áður en þing fer heim, hvort sem um er að ræða vor eða fyrir jólin. Þetta veit forseti að hv. þm. þekkir vel með alla sína þingreynslu að baki og þarf ekki að upplýsa það hér.
    Hér hefur verið minnst á að það sé langt liðið á kvöld og forseti getur tekið undir það en vill minna á að gert var ráð fyrir því að hér yrðu kvöldfundir. Það hefur legið fyrir að það eigi að reyna að ljúka hér sem allra mestu af þeirri dagskrá sem fyrir liggur. Þau mál sem nú er beðið eftir að taka til umræðu eru þess eðlis að það verður vonandi ekki löng umræða en væntanlega gefst næði til þess að nefndarformenn fái að mæla fyrir nefndarálitum sem hér liggja fyrir og þingmenn sem eru búnir að bíða hér í allt kvöld eftir því að fá að mæla fyrir sínum málum sem eru hér á dagskránni. Meiningin var einmitt að taka nú fyrir mál sem hv. 4. þm. Suðurl. bíður óþreyjufull eftir.