Afgreiðsla mála í iðnaðarnefnd

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 13:42:10 (7465)

     Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að hv. iðnn. hefur verið næsta hægfara í þessum málum, enda gerir hann sér manna best grein fyrir að hér er um afskaplega flókin og vandasöm mál að ræða sem þarfnast mikillar yfirlegu. Hitt er eigi að síður rétt sem kom fram í máli hans að því var lýst yfir fyrr á þessum vetri að von væri á skyldum frumvörpum frá ríkisstjórninni. Ég man ekki betur en það hafi verið rætt og um það hefði verið dágott samkomulag innan iðnn. að þessi mál yrðu tekin samhliða. Og það er líka rétt að fram komi, virðulegi forseti, að ég hef haldið góðum svefni án þess að vera truflaður af þeim félögum hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar með miklum óskum um það að iðnn. haldi fund um þessi mál. Hins vegar kemur það auðvitað til greina.