Opnun sendiráðs í Peking

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 22:25:25 (7534)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég skildi það á orðum hæstv. ráðherra að hann væri nokkuð sár yfir því að samstarfsflokkurinn hefði ekki virt hann þess að spyrja hann um viðhorf til þessa máls, stórbreyting á íslensku utanríkisþjónustunni, áður en þessi tillaga var flutt og því sé ráðherrann nokkuð vanbúinn að veita hér svör ( ÓÞÞ: Hefur ekki kynnt sér Kína neitt.) og ekki kynnt sér innviðina í Kína, en greinargerðin getur nú leitt stjórnarliðið í allan sannleika um stöðu mála þar. Það eru í rauninni stóru tíðindin í sambandi við þetta mál, það er sú nýja sýn og það nýja ljós, ekki EES heldur þetta nýja ljós í austri sem fjórir hv. þm. Sjálfstfl. hafa hér leitt inn í þingsalinn. En ég vildi spyrja hæstv. ráðherra að því hvert sé raunverulegt viðhorf hans til þess að færa út utanríkisþjónustuna eitthvað út fyrir þann þrönga hring sem hún nú er því að ég tek undir það með hv. flm. þessarar tillögu að það er full þörf á því að færa út íslenska utanríkisþjónustu til nýrra svæða sem lofa góðu eða þar sem möguleikar eru til þess að auka m.a. viðskipti og tengsl. Og þó að tillagan um opnun sendiráðs í Japan hafi fengið misjafnar undirtektir hjá umsagnaraðilum, þá voru þar aðilar sem tóku jákvætt undir. Ég minni á ferðamálaaðila, sem lögðust á þá sveif, en það á auðvitað ekki eingöngu að spyrja þá hagsmunaaðila sem þegar hafa haslað sér völl. Það á að hugsa um samskiptin í víðara samhengi, möguleikana til þess að nema ný lönd í viðskiptum og samskiptum og þess vegna finnst mér að þetta sé í raun alvörumál sem við erum að ræða hér um og megum ekki drepa niður með togstreitu um það hvort sendiráð sé staðsett í Peking eða í Tókíó heldur að reyna að efla okkar samskipti við þennan heimshluta þar sem mannfjöldi er mikill og möguleikar áreiðalega á samskiptum eru verulegir.