Aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu

164. fundur
Miðvikudaginn 28. apríl 1993, kl. 17:43:22 (7566)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Sú tillaga sem hér eru greidd atkvæði um felur í sér að tengja Ísland inn í hernaðarsamstarf Evrópubandalagsríkja. Hér er verið að stíga mjög alvarlegt skref til viðbótar við þá aðild að hernaðarbandalagi sem Ísland hefur verið flækt í síðan 1949. Vestur-Evrópusambandið felur í sér að Evrópubandalagsríkin sem eiga hlut að því áskilja sér rétt til hernaðaraðgerða utan við svæði viðkomandi ríkja. Með aukaaðild að þessu hernaðarbandalagi getur Ísland flækst inn í, þótt með óbeinum hætti sé, hernaðarátök sem við höfum engin áhrif á hvernig hagað verður. Vestur-Evrópusambandið áskilur sér nú þegar að beita kjarnorkuvopnum með sama hætti og Atlantshafsbandalagið gerir enn í dag. Alþb. er andvígt aðild Íslands að hernaðarbandalögum. Við erum andvíg því að tengja Ísland við Evrópubandalagið og ekki síst með þeim hætti sem hér er gerð tillaga um. Ég segi nei.