Efling íþróttaiðkunar kvenna

165. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 10:41:10 (7600)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er hreyft mikilvægu og merkilegu máli og mig langaði til að beina því til hæstv. menntmrh., sem auðvitað er alltaf að huga að sparnaði eins og aðrir ráðherrar í hans ríkisstjórn, að hér er um fyrirbyggjandi aðgerðir að ræða. Allar kannanir og rannsóknir sýna að heilsufar kvenna, ekki síst á vinnustöðum, er því miður oft lakara en karla. Þær finna meira fyrir ýmiss konar álagssjúkdómum, svo sem streitu og vöðvabólgum. Í því samhengi er einmitt mjög mikilvægt að stuðla að auknu framboði á íþróttum sem koma almenningi og almenningsíþróttum til góða. Þetta beinir sjónum að því að mér vitanlega er engin stefna í þessum málum til af hálfu ríkisvaldsins. Mikil þörf er á því að slík stefnumótun eigi

sér stað sem ekki síst beinist að því að auka íþróttaiðkun kvenna í þeim tilgang að bæta bæði andlega og líkamlega heilsu.