Framtíð húss gamla Stýrimannaskólans

165. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 10:44:26 (7602)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Við Öldugötuna í Reykjavík stendur hús gamla Stýrimannaskólans sem reist var skömmu fyrir síðustu aldamót. Til skamms tíma var grunnskóli fyrir börn Vesturbæjarins starfandi í húsinu en eftir að hann flutti í nýtt húsnæði hefur framtíð hússins verið óljós. Íbúasamtök Vesturbæjar hafa lengi haft áhuga á því að fá húsið undir félagsmiðstöð eða aðra menningarstarfsemi en á einhverju strandar. Mér leikur því hugur á að vita hvað ráðuneyti mennta- og menningarmála hefur í hyggju varðandi framtíðarnýtingu hússins en öllum má ljóst vera að þarna er um að ræða mjög merkilegt gamalt hús, eitt af fáum stórhýsum í gamla Vesturbænum í opinberri eign. Þetta hús má ekki grotna niður og verða leiksoppur vatns og vinda og barna í hverfinu. Því spyr ég hæstv menntmrh. á tveimur þingskjölum sem hér eru til umræðu, í fyrsta lagi á þskj. 858:
  ,,1. Hverjar urðu niðurstöður nefndar þeirrar sem Birgir Ísl. Gunnarsson, þáverandi menntamálaráðherra, skipaði árið 1988 til að gera tillögur um framtíðarnýtingu húss gamla Stýrimannaskólans við Öldugötu og hvenær skilaði nefndin af sér?
    2. Hvernig var tillögum nefndarinnar fylgt eftir?``