Framtíð húss gamla Stýrimannaskólans

165. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 10:48:22 (7604)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þessi svör. Eins og fram kom í máli hans eru ýmsar hugmyndir uppi varðandi nýtingu hússins og við komum reyndar betur að því á eftir en það má ljóst vera að þetta er það stórt og myndarlegt hús að það býður upp á ýmsa möguleika. Í svari ráðherra kom líka fram að þetta er að mörgu leyti svolítið sérstakt af því að húsið er eign ríkisins enda gamalt skólahús, en ýmiss konar starfsemi á vegum borgarinnar hentar hugsanlega best í húsinu. Því væri fróðlegt að það kæmi fram hvort viðræður hafa átt sér stað milli Reykjavíkurborgar og ráðuneytisins um einhvers konar makaskipti eða að borgin fengi húsið til yfirráða eða hvernig þeim málum er háttað. En raunar er aðalatriði í mínum huga það að húsið verði nýtt og að það standi ekki autt. Að vísu hefur verið smávegis leiklistarstarfsemi þarna og það verið nýtt að einhverju marki en það er alveg augljóst að ef húsið er ekki

í almennri notkun og ekki vel um það hugsað er auðvitað hætta á að þetta merkilega hús verði fyrir einhverjum skaða. Ef maður hefur í huga þær hörmungur sem yfir Þjóðminjasafnið hafa gengið hljótum við að verða að beina sjónum að varðveislu þessara húsa og hvernig um þau er hugsað en við komum reyndar betur inn á það í næstu fsp.