Flutningur verka Þjóðleikhússins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands í ríkissjónvarpinu

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 23:44:56 (7718)


     Þuríður Pálsdóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Stefáni Guðmundssyni fyrir orð hans. Ég var einmitt að biðja um betri umfjöllun og útfærslu á þessari tillögu. Auðvitað er sjálfsagt að tillagan fari til menntmn.
    Mig langaði aðeins til að útskýra hvað ég átti við. Við höfum svolitla reynslu af þessu. Oft hefur reynst mjög erfitt að taka leikrit upp beint af sviði. Það hefur þó verið gert og stundum heppnast vel, t.d. var Ofvitinn tekinn upp hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Undirbúningur var mikill og það var tekið upp á nokkrum kvöldum að mig minnir. Venjulega hefur þó reynst betra að taka þetta inn í sjónvarpssal og það var gert t.d. við Stundarfrið og þar vildi svo vel til að hægt var að færa öll tjöld og staðfæra leikmyndina. Það tókst mjög vel að samræma það því formi sem hæfir sjónvarpi.
    Við gætum tekið annað leikverk sem væri Bílaverkstæði Badda eftir Ólafs Hauks Símonarsonar sem gekk fádæma vel á litla sviðinu. Maður skyldi halda að það væri kannski eitthvað sem hefði verið ágætt í sjónvarpi en eftir því hefur verið gerð kvikmynd eftir handriti sem nefnist Ryð og það er í rauninni hreint allt annað leikverk en það sem við sáum á litla sviði Þjóðleikhússins svo að þetta getur verið afskaplega margbreytilegt.
    Ég vildi bara taka fram að við þurfum að hugsa vel um þetta og íhuga þetta mál mjög vel og einnig þurfa aðrir íslenskir listflytjendur að koma að þessu máli.