Evrópskt efnahagssvæði

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 14:00:30 (7796)

     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Nú er samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði líklega kominn til endanlegrar afgreiðslu hér á Alþingi. Frá því að fjallað var um EES í vetur hefur enn betur komið í ljós hve óráðlegt væri fyrir Íslendinga að gerast aðilar að þessu svæði. Öll þau varnaðarorð sem þá voru höfð í frammi voru síst of mikil. Það er nöturlegt að á sama tíma og þess er minnst að 150 ár eru liðin frá endurreisn Alþingis og lýðveldið verður 50 ára skuli Alþingi ætla að flytja vald í mikilvægum málum úr landi. Aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði og sú stefna sem ákvörðuð er með þeirri aðild stríðir gegn grundvallarhugmyndum mínum á fjölmörgum sviðum. Ég segi nei.