Evrópskt efnahagssvæði

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 14:04:18 (7799)

     Vilhjálmur Egilsson :
    Virðulegi forseti. Á ferðum mínum um landið að undanförnu á vegum svokallaðrar tvíhöfða nefndar hefur verið fjallað um ýmis atriði og ýmislegt verið umdeilt á þeim fundum af því sem sú nefnd hefur lagt til. En hvergi hefur verið mælt því í mót að aðild að hinu Evrópska efnahagssvæði mundi hafa stórkostlega þýðingu í för með sér fyrir íslenskan sjávarútveg á þeim erfiðleikatímum sem hann á nú við að etja.
    Ég hef líka sannfærst enn betur um þýðingu þessa samnings í störfum mínum í þingmannanefnd EFTA og sérstaklega þýðingu þess að það giltu eðlilegar leikreglur í viðskiptum milli landa og leikreglur þar sem möguleiki væri fyrir hina minni og veikari að ná sínum rétti fram eftir eðlilegum leiðum til þess að leysa úr þeim vandamálum sem upp koma. Ég tel að þessi samningur sé gífurlegt hagsmunamál fyrir íslensku þjóðina og fagna því sérstaklega að hann skuli vera kominn hér til lokaafgreiðslu og ég segi já.