Húsnæðisstofnun ríkisins

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 14:46:11 (7811)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ekki er hægt að sitja undir því að hv. 3. þm. Vestf. fari ítrekað með rangar staðhæfingar og fundarskapanna vegna sé erfitt að koma við leiðréttingum til þess að hrekja það sem sagt hefur verið og það standi ekki eftir í minnum manna sem staðreyndir. Fram kom í máli hv. 3. þm. Vestf. að ég hefði flutt milli 80 og 90 brtt. við frv. um málefni fatlaðra á síðasta þingi. Ég vil rifja það upp með hv. þm., kannski vegna þess að ég lagði dálítið mikið meira á mig, að ég hygg, að lesa frv. og kynna mér efni þess heldur en hann að því er virðist, miðað við bágt minni hans af málinu, að samanlagt var lögð fram 81 brtt. Meiri hluti þeirra brtt. var lagður fram af honum og öðrum í meiri hluta félmn. vegna þess að frv. var svo gallað. Það eru staðreyndir málsins. Ég vildi einnig rifja það upp fyrir hv. þm. að ekki voru allar aðrar brtt. felldar og ég var ekki flm. að þeim öllum heldur einnig hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir sem flutti sjálfstæðar brtt. Í tvígang gerðist það að brtt. hv. þm. Ingibjargar Pálmadóttur voru samþykktar. Hvað gerði þá stjórnarliðið? Þá risu menn upp á ráðherrabekkjunum og heimtuðu endurtekningu atkvæðagreiðslu. Forsetadæmið lét að sjálfsögðu undan þeim þannig að það væri hægt að endurtaka gilda atkvæðagreiðslu til að fá fram þá niðurstöðu sem stjórnarliðinu þóknaðist.