Húsnæðisstofnun ríkisins

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 15:05:41 (7821)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég vil gera að nokkru umtalsefni dagskrá þingsins fram undan. Mér skilst að nefndir séu að störfum núna jafnframt því að þingfundir eru haldnir. Samgn. hefur nýlokið fundi og landbn. mun einnig hafa verið á fundi. Hvað varðar samgn. sem ég á sæti í þá get ég upplýst það að þar var ákveðið að taka út frv. til nýrra hafnalaga sem mikill ágreiningur er um og jafnframt upplýst að tæpast yrði hægt að taka það til 2. umr. fyrr en í fyrsta lagi á fimmtudag og samkvæmt því sem hæstv. forseti upplýsir nú þá mun það eiga að vera síðasti starfsdagur þingsins.
    Ég mundi nú vilja koma þeim tilmælum til hæstv. forseta að það mál sé skoðað rækilega þar sem ég tel að það sé mjög stórt mál, mjög mikill ágreiningur um það. Það hefur alls ekki verið skoðað nægilega í nefndinni í vetur, kom raunar núna bara fyrir tveimur dögum síðan til álita hvort það yrði lokaafgreiðsla á því eða ekki. Jafnframt heyrðum við í hádegisfréttum að nú væri komin fram hafnaáætlun sem ekki hefur heldur verið fjallað um í samgn. og hlýtur að taka breytingum eftir því hvort þetta hafnalagafrv. verður samþykkt eða ekki. Ég tel þarna mjög stórt mál á ferðinni og engan veginn hægt að álíta sem svo að það sé hægt að ljúka því á þessum tveimur dögum sem fyrirhugað er að eftir séu af starfi þingsins.