Lagaákvæði er varða samgöngumál

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 14:39:46 (7888)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég tel nauðsynlegt að benda á að ástæðan fyrir því að hér komu fram brtt. við 3. umr. þessa máls, sem ég vænti að sé 28. mál, svo það sé nú alveg ljóst, er sú að við 2. umr. málsins benti hv. 6. þm. Vestf., Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, á að við vorum að breyta lögum sem við höfðum fellt úr gildi fyrr um daginn. Svo mikið hefur óðagotið verið við að afgreiða þessi EES-frv. að menn kunna sér hvergi hóf og ana áfram hugsunarlaust þannig að til að bjarga þessu máli varð það samkomulag milli hv. þm. og forseta og hv. 6. þm. Vestf. að málið færi aftur til nefndar og yrði lagfært þannig að eitthvert vit væri í þessari lagasetningu. Þetta vil ég að menn viti vegna þess að það voru afar fáir hv. þm. í salnum. Ég vil því mælast til að menn gæti nú að sér og séu ekki að breyta lögum sem áður hafa verið felld úr gildi.