Pappírsnotkun þjóðarinnar

171. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 11:09:37 (7955)

     Fyrirspyrjandi (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. starfandi umhvrh. fyrir svörin. Í hans svari kemur í ljós að allmikið starf hefur verið lagt af mörkum í umhvrn. til að leggja þessu máli lið, að draga annars vegar úr pappírsnotkun þjóðarinnar og sérstaklega opinberra stofnana, og síðast en ekki síst það að auka hlut endurunnins pappírs. Það er ekki annað að heyra á svari hæstv. ráðherra en að þarna sé verið að reyna að vinna starf eins og frekast má. En eins og ég vék að í upphafsorðum mínum þá er kannski ráð að við alþingismenn lítum okkur nær varðandi þá spurningu sem hv. þm. Svavar Gestsson spurði hér, hversu oft Hallormsstaðaskógur fellur undan skjölum og pappír þeim sem við notum hér í Alþingishúsinu, þá hef ég bent á það í forsætisnefnd áður að mér blöskrar þessi gegndarlausa pappírssóun í þessu húsi. Ég hef lagt á það áherslu þar að það sé tæpast hægt að taka mark á hvatningarorðum umhvrn. um að draga úr pappírsnotkun og auka hlut endurunnins pappírs á meðan Alþingi Íslendinga fer jafnfrjálslega með skóga heimsins og raun ber vitni. Hérna þarf Alþingi að ganga á undan með góðu fordæmi til þess að þjóðin geti tekið mark á að feta í slík fótspor. Hér er um stórt mál að ræða og fjölmargir telja að hér þurfi að grípa til aðgerða. Þess vegna bar ég fram þessar fyrirspurnir.