Vatnsborð og búsvæði bleikju í Þingvallavatni

171. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 11:16:38 (7958)

     Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og flestum er kunnugt er Þingvallavatn ein af merkilegustu perlum í íslenskri náttúru. Vatnið er sérstakt fyrir þá sök að þar hafa í rás 10 þúsund ára þróast fjórar gerðir af bleikju sem nefnar hafa verið sílableikja, murta, kuðungableikja og síðan dvergbleikja sem er eins konar undirafbrigði af kuðungableikju og líka stundum kölluð svartbleikja. Þessar bleikjur búa þarna saman og þetta er eina vatnið í öllum heiminum þar sem hægt er að nefna fjórar gerðir af bleikju. Það er mjög mikilvægt að ekkert sé gert sem geti svipt þessar merku bleikjugerðir undirstöðunni, en eigi að síður er það svo að þær eru sumar í nokkurri hættu staddar vegna verka af mannsins völdum.
    Þessar bleikjur eru sérstakar. Þær eru þannig gerðar að þær eru aðlagaðar að mismunandi líferni. Murtan og sílableikjan eru aðlagaðar að hröðu sundi, þær eru jafnmynntar eins og hv. formaður þingflokks

sjálfstæðismanna sem hér brosir framan í mig, og eru til þess lagaðar að hrifsa bráð sína. Kuðungableikjan og dvergbleikjan eru hins vegar allt öðruvísi. Þær eru lagaðar að hægu botnlífi. Þær hafa mjög breiða kviðugga, þær hafa ekki þessa sömu straumlínulögun og sílableikjan og murtan og þær lifa fyrst og fremst á kuðungum sem er að finna á hörðu undirlagi á grunnu vatni í Þingvallavatni. Þær tína þessa kuðunga upp og lifa eingöngu að segja má á þeim.
    Kuðungarnir hins vegar hafa verið í nokkurri hættu staddir. Þegar virkjunin brast þjóðhátíðardaginn 1959, þá lækkaði yfirborð vatnsins á einum degi um 1--1,5 m og þá var höggvið mjög breitt skarð í kuðungastofninn og því er haldið fram að síðan hafi kuðungableikjan aldrei náð sér. Í dag er hún miklu minni að vöxtum en aðrar bleikjugerðir í vatninu. Það er talið að ekki sé nema vel innan við milljón kuðungableikjur. Síðan er henni líka búin önnur hætta af mannsins völdum. Þannig er að örar breytingar á yfirborði vatnsins geta leitt til þess að kuðungar lenda á þurru og deyja og þar með er takmarkað það búsvæði sem kuðungableikjan hefur yfir að ráða. Náttúrulegar sveiflur áður fyrr í vatninu námu e.t.v. 20--30 sm og urðu á löngum tíma, þ.e. á tveimur til þremur mánuðum.
    Nú er það svo að vegna raforkuframleiðslu er leyfilegt að breyta sveiflum vatnsins þannig að það má lækka það um 10 sm á einum degi 10 daga í röð, þ.e. allt að einum metra. Nú er að vísu farið mjög sparlega með þetta og Landsvirkjun hefur mikinn skilning á þessu máli. Eigi að síður hef ég lagt hér fram fsp. til hæstv. umhvrh. um hvort hann hyggist beita sér fyrir því að reglur sem takmarka þessar yfirborðssveiflur vegna raforkuframleiðslunnar verði hertar til þess að vernda betur búsvæði þessarar bleikju sem er í hættu.