Utandagskrárumræður

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 18:24:54 (8065)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég tek því ekki illa þó að hæstv. utanrrh. flokki mig í galnari armi Framsóknar. Það hefur raunverulega aðeins einn maður verið settur á kantinn. Sá hét Jónas frá Hriflu. Og þegar hann var úrskurðaður galinn, þá skrifaði Nóbelsskáldið forðum: Vona að Íslendingar eignist fleiri slíka vitleysinga.
    En þá snúum við okkur að hinu atriðinu hvers vegna ég stóð hér upp og tala um þingsköp. Hér lifir lítið eftir af þingtíma. Ég gerði grein fyrir því hvers vegna ég yrði að fá hálftíma umræðu um iðnaðarmál sem ég á rétt á. Það má lesa þingsköpin. Það er farið fram á að þetta sé tilkynnt. Það stendur hvergi hvort það eigi að gera það úr ræðustól eða niðri í forsetaherbergi. Ég vona að hæstv. utanrrh. geti athugað það.
    Jafnframt vil ég vekja athygli hæstv. utanrrh. á því að allur sá hluti ræðunnar sem hann flutti og fór í að skamma forseta var um þingsköp, um ekkert annað en þingsköp, vegna þess að þegar menn tala um þingsköp, þá eru menn að gagnrýna forsetann nema þeir séu að biðja forsetann um eitthvað eins og ég var að gera í minni ræðu og flutti að sjálfsögðu rökstuðning fyrir því hvers vegna. Hér er því haldið fram að EES sé forsenda fríiðnaðarsvæða. Heyr á endemi! Hafa engin fríiðnaðarsvæði orðið til í þessum heimi áður en EES komst á dagskrá? Hvers lags rugl er þetta? Hvers vegna sögðu þeir hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni ekki strax þegar hann flutti sínar tillögur um fríiðnaðarsvæðið í Keflavík að þetta væri bara vitleysa hjá honum, það væri ekkert hægt að tala um þetta fyrr en búið væri að koma á EES? Svona rugl er náttúrlega ekki boðlegt, herra forseti. Það vona ég að forseti geri sér grein fyrir.