Utandagskrárumræður

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 18:38:03 (8073)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Fyrir svona tveimur þingum síðan gat ég með sannindum sagt að það væri afar fátítt að ég kveddi mér hljóðs um þingsköp. Ég held að ég hafi verið á þingi í átta ár og gert það þá tvisvar sinnum. Og þó ég hafi ekki langa þingreynslu, þá veit ég það að þessi ósiður einstakra þingmanna að halda þinginu við eilífar ásakanir um brot á settum fundarsköpum hefur farið mjög í vöxt. Menn hafa gengið á lagið af því að á þessu hefur ekki verið tekið. Þetta hafa menn hér kallað einhverja gagnrýni á virðulegan forseta. Ég vil taka það fram að samúð mín er með forseta því að það er vissulega svo að þegar helstu forustumenn þingflokka í stjórnarandstöððu gera þetta að starfsstíl sínum, þá er forseta náttúrlega mikill vandi á höndum.
    Nú fór aldrei nema svo hér að umræðan varð allt í einu um þingsköp, þ.e. hér talaði einn hv. þm., fulltrúi Kvennalistans og sagði að þetta væru bara hin verstu þingsköp. Aðrir eru farnir að ræða það hvort unnt sé að breyta þingsköpum á þann veg að þessir ósiðir verði aflagðir vegna þess að það fer ekkert á milli mála að þetta eru ósiðir og þetta eru ólög. Svona starfa ekki þing. Þing starfa um dagskrárefni en eru ekki dag hvern frá viku til viku og mánuði til mánðar með upphlaup utan dagskrár um þingsköp sem þýðir að hv. þm. eru að gera athugasemdir við fundarstjórn forseta. (Gripið fram í.) Og menn geta bara litið . . .   ( ÓÞÞ: Hvaða dagskrárliður er þetta?) Sko, það er byrjað, það er byrjað. ( ÓÞÞ: Hvað heitir dagskrárliðurinn?) Þessir hinir sömu menn eiga svo bágt með að hlusta á andstæð sjónarmið að það er með ólíkindum. Þeir geta ekki setið kyrrir, þannig að það eru eilíf frammíköll. (Gripið fram í.) Það eru nokkrir menn sem stunda það líka, algerlega kerfisbundið.
    Nú er það svo að ef menn vilja í alvöru íhuga starfshætti þjóðþinga, þá vita menn það að ósiðir af þessu tagi eru ekki stundaðir í þjóðþingum. (Gripið fram í.) Farið bara yfir það hvernig þjóðþing starfa og hvernig þeim er stjórnað. Það að einn virðulegur þingmaður sem er forustumaður í stjórnmálaflokki, fyrrv. ráðherra og þaulreyndur maður skuli hafa talað yfir hundrað sinnum um þingsköp á einu þingi, er auðvitað alveg með ólíkindum. Það er að sjálfsögðu misnotkun. Það getur ekki verið að hv. þm. hafi þurft svo oft að vanda um við forseta. En ef þessi umræða hefur orðið til þess að menn vilja hugleiða það í alvöru hvaða breytingar þurfi að gera hér á þingsköpum til þess að þingstörf geti farið fram með eðlilegum hætti, þá er vel.