Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála

173. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 21:13:08 (8087)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Stuðningur minn við þetta mál hefur komið fram í þinginu og ég tel þetta frv., ef að lögum verður, mjög til bóta. En það sem ég vildi koma á framfæri við hæstv. menntmrh. er að fjármunir eru afl þeirra hluta sem gera skal. Það er mjög hætt við því að í erfiðu árferði þá hallist menn að því að reyna bæði að standa gegn því sem er nýtt og eins hitt að skera niður það sem menn telja að e.t.v. sé hægt að láta eiga sig. Satt best að segja þá óttast ég mjög að þessi stofnun muni líða fyrir það að ekki verði veittir nægir fjármunir til hennar. En erindi mitt í ræðustól er að undirstrika það alveg sérstaklega að vilji hæstv. ráðherra vinna að sparnaði, hagræðingu og framförum í skólastarfi þá er ekki hægt að gera það betur en með því að efla þessa stofnun þannig að á bak við ákvarðanatöku sé hægt að sýna fram á með rökum að um vísindaleg vinnubrögð hafi verið að ræða. Ég er sannfærður um að Íslendingar geta gert mjög stóra hluti í menntamálum. Við höfum mikla möguleika á að hagnýta okkur sjónvarp til þess að koma á fjarkennslu í stórum stíl en það vantar rannsóknir, það vantar eins og sagt er, rödd sem úr þrætunum sker. Ef þessi stofnun fengi þá fjármuni sem hún þyrfti til þess að standa að eðlilegu rannsóknastarfi þá er ég sannfærður um að ávöxturinn yrði mikill og það yrði til góðs og gæti orðið til þess að draga úr deilum manna um það hvernig standa beri að einu og öðru í íslenska menntakerfinu.