Skipulagslög

174. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 11:03:50 (8156)


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég stend að þeirri afgreiðslu sem fyrir liggur í þessu máli af hálfu umhvn. þar sem samkomulag tókst um afgreiðslu málsins. Ég var hlynntur því fyrirkomulagi sem hæstv. umhvrh. lagði til í frv. á síðasta þingi en eins og fram hefur komið tókst ekki um það samstaða. Það er flestum ljóst sem þekkja til á miðhálendi Íslands hversu brýn nauðsyn er á að þar verði tekið á með öðrum hætti að því er varðar skipulagsmál og eftirlit með málum og náttúruvernd, með öðrum hætti frá því sem verið hefur. Því var það sammæli í nefndinni að stíga það skref sem hér er lagt til og taka undir þann farveg sem lagður var til og samstaða hafði tekist um með umhvrh. og fulltrúum sveitarstjórna sem umhvrn. leitaði samráðs við. Ég vænti þess að sá farvegur sem hér hefur verið markaður leiði til þess að innan ekki langs tíma verði mótuð tillaga að skipulagi miðhálendisins og að sú tillaga fái umsagnir af hálfu sveitarstjórna og síðan verði hægt að vinna markvisst áfram í málinu á grundvelli þeirra ákvarðana sem Alþingi síðar tekur í sambandi við m.a. skipulags- og byggingarlög. En einnig tek ég mjög eindregið undir það að spurningin um eignar- og umráðarétt á hálendinu er málefni sem tengist þessu. Það varð skýrt af málsmeðferð í nefndinni og viðræðum við þá lögfræðinga sem rætt var við að æskilegt, mjög æskilegt er, svo ekki sé fastara að orði kveðið, að tillaga þar að lútandi komi fram og verði afgreidd á Alþingi hið allra fyrsta.