Staða iðnaðarins

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 16:59:01 (8228)

     Vilhjálmur Egilsson :
    Virðulegi forseti. Það er nú sjálfsagt hægt að ræða um stöðu iðnaðarins út frá margvíslegum forsendum og sjónarmiðum. Ég held að það fari ekkert á milli mála að þeir erfiðleikar sem við er að etja í okkar þjóðarbúskap koma niður á iðnaðinum eins og öllum öðrum atvinnugreinum. Iðnfyrirtæki eru ekkert öðruvísi en fyrirtæki í sjávarútvegi, verslun, þjónustu eða hverri annarri atvinnugrein og gjalda þess þegar það er samdráttur í eftirspurn og veltu. Þess vegna getum við alveg staðfest það að það eru mörg fyrirtæki sem eiga í erfiðleikum en sem betur fer eru líka mörg fyrirtæki sem eru vel stödd og standast þessa erfiðu tíma. Þau fyrirtæki, sem skulda mikið í iðnaði jafnt sem öðrum atvinnugreinum, berjast í bökkum en fyrirtæki sem eru eignalega sterk hafa hins vegar náð að halda sjó.
    Ef við lítum á stöðu iðnaðarins í gegnum tíðina, t.d. frá 1973, þá sýnist mér á upplýsingum frá Þjóðhagsstofnunar sem eru nýkomnar fram að hlutdeild iðnaðarins í landsframleiðslunni hafi verið nokkuð svipuð á öllum þessum tíma. Hún var 13,1% á árinu 1973 en er núna 12,2%. Þetta er kannski sá mælikvarði sem við getum bestan fundið á umfangi iðnaðarins í okkar þjóðfélagi, okkar efnahagslífi. Hins vegar er það einu sinni þannig að ef iðnaðurinn heldur sínum hlut í okkar þjóðarbúskap og störfum fækkar þá gæti það hugsanlega verið mælikvarði á framleiðniaukningu í iðnaðinum þar sem færri og færri hendur framleiða sömu verðmæti. Það hlýtur náttúrlega að vera viðleitni hvers iðnrekanda sem er að reyna að stýra sínu fyrirtæki vel og það sem við köllum mælikvarða á framfarir er að það sé framleiðniaukning. (Forseti hringir.)
    Það sem skiptir mestu máli fyrir iðnaðinn er að það sé ekki gripið til einhverra töfralausna. Meginatriðið er að iðnaðurinn geti búið við stöðugleika í sínu starfsumhverfi og fái sambærileg skilyrði og erlendir keppinautar hans búa við. Það er það sem iðnaðurinn hefur fyrst og fremst farið fram á að fá og ég hygg að það sé ekki hægt að draga menn í dilka og finna einhverja sérstaka sökudólga í tilteknum flokkum um að það hafi ekki tekist.