Afgreiðsla frumvarps um framleiðslu og sölu á búvörum

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 09:06:32 (8280)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Forseti kannast við þá ósk hv. þm. að 504. mál yrði haft á dagskránni á undan öðrum málum frá landbn. og hefur orðið við þeirri ósk. Þannig er málum raðað á dagskrána og forseti taldi sig vera að fara að óskum hv. 3. þm. Austurl. Varðandi röð mála á dagskrá þessa fundar þá er hún með þeim hætti að það verður reynt að afgreiða þau mál sem líkur benda til að kalli ekki á mikla umræðu áður en tekin verða fyrir þau mál sem hugsanlega taka lengri tíma. En forseti vill benda hv. þm. á að dag skal að kvöldi lofa og við erum nú að byrja fyrsta fund á þessum degi. Klukkan er 9 að morgni og forseti vill beina því til hv. þm. að sýna nú ofurlitla þolinmæði og sjá hvort ekki leysist úr málum þótt það verði ekki strax hér að morgni kl. 9. Það er ekki ætlunin að fram fari atkvæðagreiðslur núna. Fyrstu sjö dagskrármálin eru atkvæðagreiðslur og síðan eru önnur mál sem forseti a.m.k. telur líkur á að taki ekki langa umræðu. Þannig hefur verið unnið undanfarna daga að undirbúningi dagskrár að reynt hefur verið að ljúka sem flestum málum sem taka litla umræðu áður en komið er að öðrum og umdeildari málum.