Veiðiheimildir í lögsögu annarra ríkja

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 11:00:10 (8315)

     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Það er e.t.v. óþarfi fyrir mig að fara í ræðustól eftir síðustu orð hæstv. sjútvrh. því það er raunar það sem ég tel skipta meginmáli að það sé alls ekki rétt að samþykkja þessa tillögu nú. Kannski ekki síst með tilliti til þess sem hv. formaður nefndarinnar sagði þegar hann mælti fyrir áliti nefndarinnar. Hann sagði að fulltrúi Samtaka um kvennalista í nefndinni væri samþykk áliti þessu. Það stendur ekki í nál. heldur bara að hún hafi setið fundi nefndarinnar. Ég vil lýsa nokkrum efasemdum um ágæti þessarar tillögu eins og hún er orðuð á þskj. 357. Ég tel það út af fyrir sig gott og vel að opinberir aðilar aðstoði fyrirtæki eins og hæstv. sjútvrh. lýsti áðan, en það er hins vegar vafasamt að það eigi að vera einhver opinber stefna að svo skuli gert og það skuli leita sérstaklega eftir veiðiheimildum í lögsögu annarra ríkja. Það er einmitt það sem mjög líklega kemur upp á að krafist verði gagnkvæmra veiðiheimilda og í hvaða stöðu verða Íslendingar þegar búið er að óska eftir því að fá veiðiheimildir í lögsögu annarra ríkja og e.t.v. fá já við því þegar það sama ríki kemur svo til baka til okkar og við ætlum þá að segja nei? Ég held að við getum lent í mjög erfiðri stöðu ef ríkisstjórnin fer að leita eftir veiðiheimildum í lögsögu annarra ríkja. Þess vegna tel ég að það sé ekki hægt að samþykkja þessa tillögu eins og hún kemur fyrir á þessu þskj.
    Ég vek einnig athygli á því, frú forseti, að það er mjög merkilegt að við erum að afgreiða hverja tillöguna á fætur annarri sem koma frá formönnum nefnda og stjórnarliðum. Margar tillögur frá stjórnarandstæðingum liggja hins vegar í nefndum og fást ekki einu sinni afgreiddar úr nefndum vegna andstöðu bæði nefndarformanna og annarra, þrátt fyrir mjög góðar tillögur. Ég tel að málinu væri fyrir bestu að

nefndin félli frá þessu nál. og þetta yrði ekki tekið frekar fyrir á þessu þingi.