Reynslusveitarfélög

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 19:46:58 (8421)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hugmyndir um tilraunasveitarfélög eru um margt athyglisverðar og ég held að það skipti máli að kostnaði við að fylgjast með hvernig til tekst með framkvæmdina verði stillt í hóf. Mér sýnist þess vegna mjög nærtækt, ef það væri hægt að ná samkomulagi um það, að gera þá tilraun t.d. að Hafnarfjörður, Garðabær og Bessastaðir, yrðu tilraunasveitarfélag. Þar hagar svo til að Bessastaðir og Garðabær hafa mikið óbyggt landrými en Hafnarfjörður er aftur á móti kominn í gífurleg landþrengsli og farinn að byggja á stöðum sem engum hefði dottið í hug fyrir 10 árum að yrðu byggð hús á, eins og allir sjá sem þar horfa yfir svæðið. Einnig hlýtur það að vera þjóðhagslega hagstætt að svæðið á milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar verði byggt á næstu árum heldur en að byggðin teygist þannig að rými hennar aukist út frá þeirri miðju sem hér er. Einnig má segja sem svo að engar landfræðilegar hindranir komi í veg fyrir þetta og mjög margt mælir með því að þetta ætti að geta átt sér stað með friðsamlegum hætti þegar það er skoðað að Hafnarfjörður var einu sinni hluti af mun stærra sveitarfélagi. Á Vestfjörðum hefur þegar gerst að Ísafjörður, sem var hluti af stærra sveitarfélagi, var sameinaður aftur sínu gamla landsvæði, Eyrarhrepp hinum forna, og reynslan af því er góð. Ég sé því ekki nema allt jákvætt um þetta.
    Ég hef líka stundum, af því að ég hef aldrei vitað fyrir víst hvar mörkin eru á milli Seltjarnarness og Reykjavíkur, litið svo á að það gæti verið mjög æskilegt að þeir kæmu inn í þessa mynd. Með þessu er ég ekki að leggjast gegn því að þetta verði jafnframt gert úti á landi, þannig má enginn skilja orð mín, ef það er gert í sátt við þá íbúa sem þar eru og að sjálfsögðu verður einnig að standa þannig að því hér á þessu svæði.