Afbrigði um stefnuræðu forsætisráðherra

6. fundur
Mánudaginn 24. ágúst 1992, kl. 13:31:42 (33)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Áður en gengið er til dagskrár vill forseti vekja athygli á því að í samkomulagi forustumanna flokkanna frá því 8. maí 1992 um þingmeðferð EES-samningsins á Alþingi er gert ráð fyrir að stefnuræða forsrh. verði á hefðbundnum tíma, þ.e. í byrjun október. Í samræmi við þetta er í þeirri starfsáætlun sem forsætisnefnd hefur afgreitt og send verður þingmönnum í dag stefnt að því að stefnuræðan verði flutt þriðjudaginn 6. okt. Í 73. gr. þingskapa eru hins vegar bein ákvæði um að innan tíu daga frá setningu Alþingis skuli forsrh. flytja stefnuræðu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Þess vegna er þörf á að veita formlega afbrigði frá þingsköpum þannig að þetta samkomulag geti gengið eftir og sú ætlan forsætisnefndar að stefnuræðan verði flutt 6. okt. Nú fer því fram atkvæðagreiðsla um hvort þingið veiti afbrigði frá 73. gr. þingskapa til að stefnuræða forsrh. verði flutt 6. okt.