Kjaradómur

12. fundur
Miðvikudaginn 02. september 1992, kl. 16:02:35 (256)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég ræddi nokkuð ítarlega í minni framsöguræðu um þennan þátt sem ég tel að sé umræðunnar virði, þ.e. hvernig hægt er að breyta reglum þingsins til þess að meiri möguleiki sé á því að þing verði kallað saman heldur en nú er í íslenskum lögum og benti á í því sambandi að Danir fara þannig að þegar þing þarf að kalla saman þar vegna atriða sem áður kostuðu bráðabirgðalög að þá lýkur þingið slíku starfi á einum degi. Ég held að það gæti til að mynda orðið okkar þingi til eftirbreytni. það sem ég segi hér og nú er ekki nein ásökun í garð núverandi stjórnarandstöðu heldur er einungis verið að skýra frá því að ég tel að þingið hafi alls ekki lokið því starfi sem hófst með síðustu breytingum heldur hafi verið fallið frá því og ég skýrði þetta mjög rækilega í minni ræðu. Sjálf breytingin á stjórnarskipunarlögunum var ekki breyting sem að neinu leyti raskaði skilyrðum 28. gr. eins og alls staðar hefur komið fram. Þingið heyktist hins vegar á því að klára málið og breyta þingskapalögum þannig að tryggt væri að þegar brýna nauðsyn bæri til, þá væri hægt að kalla þingið saman og afgreiða mál í einni svipan.
    Það var einungis þetta og ég tel þetta vera þarfa umræðu einmitt um þennan þátt málsins og tel að bæði þingmenn í stjórn og stjórnarandstöðu ættu að setjast yfir þetta tiltekna mál.