Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Fimmtudaginn 03. september 1992, kl. 19:29:51 (303)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég átti ekki við neitt sérstakt. Ég spurði einfaldrar spurningar en fékk ekkert svar. Ég spurði á hvaða sviði öðru en sjávarútveginum við mundum samkvæmt orðum hæstv. forsrh. í ræðu sinni njóta okkar sérhæfni inn á þennan nýja, stóra markað. Forsrh. nefndi það sem meginrök í sinni fyrri ræðu og hann hlýtur að hafa eitthvað í huga þar annað en almenn orðum sérhæfni og verkaskiptingu.
    Í öðru lagi vil ég nefna það að hæstv. forsrh. tók ekkert fram að hann ætti við viðskiptasamninga þegar hann ræddi um utanríkissamninga sem Framsfl. hefði hér tækifæri til að taka þátt í. Ég vil bara minna hæstv. forsrh. á þátt Framsfl. í útfærslu landhelginnar, í hafréttarsáttmálanum sem voru mjög flóknir milliríkjasamningar og ég vil biðja hann til að mynda varðandi landhelgismálið að bera saman þátt og afstöðu Framsfl. við þátt Sjálfstfl. í þeim leik.