Atvinnumál

14. fundur
Mánudaginn 07. september 1992, kl. 15:27:09 (327)


     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Leiðréttingar þingmannsins voru allar út í bláinn. Hann hefði betur gert að koma ekki hér upp fyrst leiðréttingarnar voru af þessu tagi. Ég hafði sagt og það stendur og það kom reyndar fram hjá hv. 18. þm. Reykv. líka að það væri fjarri öllu lagi að vera að tala um að atvinnustig hér væri það sama og í nálægum löndum. Mín landafræðikunnátta er önnur en hv. þm. því Japan er ekki í mínum huga nálægt land. Ég mundi setja mörkin einhvers staðar annars staðar. Hann getur haft það eins og hann vill. Það var rakið að atvinnuleysi í Finnlandi væri um 13% og 11% í Danmörku. Með Japan innan borðs tók hann 7% dæmi sem meðaltal. Þjóðhagsstofnun talar um 3,5% hjá okkur. Það er helmingi meira atvinnuleysi. Það ætti að vera nægjanlegt til þess að þingmaðurinn skildi að við værum ekki á neinu svipuðu stigi og ég vek athygli á því að tölurnar varðandi Svíþjóð og Noreg sem viðskrh. fór með með áðan og Finnland og Danmörku eru á allt öðru stigi en hann vildi vera láta.
    Varðandi hallann af veiði og vinnslu þá spurði þingmaðurinn hvað ég teldi halla ef 6--7% halli af veiðum og vinnslu væri ekki alvarleg staða. Annaðhvort fylgdist þingmaðurinn ekki með eða hlustaði ekki á ræðu mína nema hvort tveggja væri. Þessar tölur eru ekki með útgreiðslunum úr Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins inni. ( Gripið fram í: Það breytir engu um rekstrargrundvöll.) Ég sagði í ræðu minni nákvæmlega og þess vegna var leiðréttingin fráleit að vegna þess að þessar greiðslur hefðu komið fram og því væri staðan hjá fyrirtækjunum betri sem því næmi. Það væri hins vegar bundið við eitt ár, einn tíma og eina summu af peningum. Allt þetta sagði ég þannig að leiðrétting þingmannsins var gersamlega út í bláinn. Og

þingmaðurinn sem tekur svona mikinn tíma í að tala hér umfram alla aðra þingmenn í þessu húsi eins og frægt er ætti að sjá sóma sinn í að hlusta sæmilega á aðra þingmenn sem tala miklu skemur en hann.