Kjaradómur

15. fundur
Þriðjudaginn 08. september 1992, kl. 15:02:00 (375)



     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Ég bar það ekki á hæstv. fjmrh. að hann hefði logið. Ég sagði að það væri alvarlegt mál ef logið hefði verið að forsetanum. Og nú er hæstv. fjmrh. reyndur að því að vera kjarkmaður, hugrakkur maður. Og vissulega hefur hann staðið hér vel fyrir því hvað hugrekkið snertir. Ég tel að þögn hans í þessum efnum verði ekki túlkuð á þann veg að hann viti nákvæmlega ekkert um það hvað sagt var við forsetann vegna þess að hann talaði aldrei við forsetann. Ég tel að það hafi verið forsrh. sem hafi talað við forsetann. Þannig standi málin. Því auðvitað er reyndur kjarkmaður eins og hæstv. fjmrh. ekki sú skræfa að hann þori ekki að segja þinginu hvað hann sagði við forsetann. Vafalaust mundi hjónaband standast að lögum þó að maður bæri upp bónorð og lofaði gulli og grænum skógum. Vafalaust mundi það standast að lögum þó það kæmi í ljós seinna að þetta hefði ekki allt verið satt sem hann bauð upp á. En hafi aftur á móti verið logið að forsetanum í þessu tilfelli er það alvarlegt mál og það er allt annað en innra samstarf stjórnarflokkanna því forsetinn er ekkert í stjórnarflokkunum mér vitanlega. Hann er þar fyrir ofan og utan. Þess vegna er vonlaust annað, ef hæstv. ráðherrum er einhver alvara í að greiða fyrir umræðunni, að forsrh. geri hreint fyrir sínum dyrum í þessu máli. Og hafi bráðabirgðalögin verið brýn þá er það brýnt að hann mæti til starfa hér. Mér er ekki kunnugt um að hann sé með fjarvistarleyfi. Það má vel vera að svo sé en það verður þá að koma fram hjá forseta að svo sé. En alvaran er sú að það er gersamlega vonlaust að hafa í lausu lofti hvað sagt var við forsetann. Það er nefnilega ekki víst að forseti Íslands hefði tekið þátt í að taka upp svo slæma venju þó hún sé lögleg, hæstv. dómsmrh., að hér fari bráðabirgðalög í gegn og enginn viti hver afstaða þingsins verður á eftir. Þess vegna er það óhjákvæmilegt að svar fáist við því hvað menn sögðu við forseta Íslands þegar hæstv. forseti landsins var fenginn til þess að skrifa undir þessi lög. ( Gripið fram í: Er forsrh. með fjarvistarleyfi?) ( Forseti: Forseti upplýsti í upphafi fundar að forsrh. væri ekki með fjarvistarleyfi en hann væri í önnum við að sinna konungshjónunum frá Noregi.) ( Gripið fram í: Það er nú búið.)