Kjaradómur

15. fundur
Þriðjudaginn 08. september 1992, kl. 15:13:09 (380)


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Þrautreynt er, virðulegi forseti, þegar reynt er í þriðja sinn. Tilraun mín áðan til að fá hæstv. fjmrh. til að svara því hér hvaða ráðherra ræddi við forseta lýðveldisins bar engan árangur. Hér hefur þingið spurt grundvallarspurningar um stjórnskipun íslenska lýðveldisins: Hvaða ráðherra ræddi við forseta lýðveldisins þegar bráðabirgðalög voru gefin út? Og fjmrh., varaformaður Sjálfstfl., hefur ekki treyst sér til þess þótt þrívegis hafi honum verið gefið tækifæri til þess hér í þingsalnum að svara þessari einföldu spurningu. Í stað þess að svara henni kýs hann að halda áfram umræðu við mig um afstöðu hans til fjáraukalaga fyrir árið 1990 og afstöðu hans til tillögu fjárln. sem hér var flutt um að taka Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins inn í þau fjáraukalög. Ég er reiðubúinn að ræða það í þinginu og ætla mér sjálfur að hafa frumkvæði að því eins og hér hefur komið fram. Ég sagði það hér áðan að ég mundi leiðrétta það í Morgunblaðinu á morgun að hæstv. fjmrh. tók ekki þátt í atkvæðagreiðslunni um það mál og sjálfsagt að hafa það sem sannara reynist í þeim efnum. Ef hæstv. fjmrh. er einhver hugarhægð í því að beðist sé afsökunar á

því að segja frá því að hann hafi verið viðstaddur atkvæðagreiðsluna, þá er líka alveg sjálfsagt að gera það fyrir hugarró hæstv. fjmrh. En það er bara aukaatriði í því máli. Aðalatriðið er hver var efnisleg afstaða hæstv. fjmrh. Fjmrh. lýðveldisins sem hefur ekki afstöðu til fjáraukalaga ætti bara að segja af sér. Fjmrh. sem skýtur sér á bak við það að hann hafi ekki mætt og það sé aðalatriðið, hann var ekki í salnum til að ýta á hnapp, en segir ekki við þingið hver efnisafstaða hans er gagnvart upphæð sem skiptir milljarði. Hann er bara eins og lítill strákur sem segir: Ég var ekki með. Hann hagar sér ekki eins og virðulegur fjmrh.
    Ég ætla hins vegar ekki að blanda því inn í þessa umræðu. Það skulum við, ég og hæstv. fjmrh., ræða undir sérstökum dagskrárlið, virðulegi fjmrh. Ég er líka reiðubúinn að taka lengri umræðutíma utan dagskrár um það mál ef ráðherrann vill, alveg sjálfsagt mál að ræða það. Hitt ber að harma. Það eru auðvitað hin stóru tíðindi þessarar umræðu að hæstv. fjmrh. hefur ekki, þrátt fyrir það að þrívegis hafi hann verið beðinn um skýr svör, svarað þinginu því hvaða ráðherra ræddi við forseta lýðveldisins. Þar til þeirri spurningu verður svarað er ekki hægt að álykta á annan veg en þann að enginn hæstv. ráðherra hafi rætt við forseta lýðveldisins. Það eru auðvitað mikil tíðindi ef svo hefur verið.