Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 01:37:03 (468)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Því er til að svara að við þurfum ekkert að vinna það til pólitískra sátta í málinu sem gerist af sjálfu sér. Samningurinn mun breytast í tvíhliða samning við þær kringumstæður sem ég áður lýsti. Það er ekki tímabært að taka upp samninga um það og ekki hægt fyrr en það liggur þá fyrir að sú staða sé komin upp. Það er það fyrsta.
    Spurningin um hvort ég sé reiðubúinn að lýsa því yfir að ekki komi til greina að ganga í Evrópubandalagið, þá er mér bæði ljúft og skylt að segja það sem allir eiga að vita. Það kemur ekki til greina af hálfu okkar Íslendinga að sækja um aðild að Evrópubandalaginu nema þau skilyrði sem við setjum séu 100% tryggð, nákvæmlega hin sömu skilyrði og við höfum sett í fyrirvara okkar um forræði okkar fyrir efnahagslögsögunni, yfir fiskimiðunum, yfir auðlindunum. Hvort þær aðstæður geti skapast einhvern tíma síðar á þessum áratug eða á næstu öld, get ég ekki svarað á þessari stundu.