Kynning á EES-samningi gagnvart sveitarfélögum

17. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 10:46:13 (529)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er ljóst af svörum hæstv. utanrrh. að af hálfu hans og ráðuneytis hans hefur ekki farið fram nein skipuleg kynning á þessum samningi gagnvart sveitarfélögum. Hann nefndi upplýsingabæklinginn sem dreift hefur verið í hvert hús. Ég er með hann og hef verið að gæta að því hvar í þeim bæklingi væri að finna einhverja samantekt um þennan samning gagnvart sveitarfélögunum og það er aðeins á tveimur stöðum sem orðið sveitarfélag er nefnt. Það er annars vegar varðandi opinber innkaup og hins vegar um landakaup. Að öðru leyti er ekki að finna í þessum upplýsingum frá hæstv. utanrrh. eða ráðuneytinu neina samantekt eða yfirlit um þennan samning og hvaða áhrif hann hefur á skyldur sveitarfélaga, sérstaklega hvað varðar kostnaðarauka.