Skoðanakönnun á þekkingu fólks á EES

17. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 11:09:52 (540)

     Fyrirspyrjandi (Ólafur Þ. Þórðarson) :
    Herra forseti. Það kom fram í þessari skoðanakönnun að örlítið brot, 1,3%, taldi sig þekkja þetta mál og þeir studdu það flestir. Það er ekki trúlegt að ef ég með mínum kennsluháttum hef orðið til að fræða menn að þeir hefðu þá hikað við að segja að þeir hefðu kynnt sér málið og hefðu á því þekkingu. Þeir hefðu þá trúlega ekki verið stuðningsmenn þess. Ég fæ því ekki séð að það gangi upp hjá hæstv. ráðherra að halda því fram að það fjármagn sem hann fékk til að sjá um kennsluna hafi verið notað af mér til að koma röngum upplýsingum á framfæri. Hann er einn handhafi þess fjármagns sem fór í þessa kennslu. Það þýðir ekkert hjá Háskóla Íslands að kvarta yfir því að einhver annar, sem ekki fékk peninga til þess að kenna stúdentum á háskólastigi, hafi vanrækt það. Það er sá sem fjármagnið fékk sem verður að standa skil á því verkefni sem hann tók að sér.
    Hefði hæstv. ráðherra verið maður til að leggja til að þessu fjármagni hefði verið dreift þá hefði hann getað kvartað yfir því að hinir hefðu ekki staðið sig.