Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

19. fundur
Föstudaginn 11. september 1992, kl. 17:17:44 (669)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Við erum búin að vera á fimmta klukkutíma að ræða þessi mál og það hefði náttúrlega verið mjög gott ef hv. þm. hefði verið viðstaddur umræðuna þannig að menn þyrftu ekki að fara að svara því sem búið er að svara mjög þráfaldlega og efnislega hér í þessum umræðum. Ég ætla ekki að gera það út af þessari spurningu um íslenskukunnáttuna heldur vísa hv. þm. að leita upplýsinga hjá hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem spurði nákvæmlega um það efni sem hún spurði um og fékk alveg fullgilt og fullnægjandi svar.
    Ég vil aðeins láta það koma fram að það kom fram hjá hv. þm. Guðmundi Bjarnasyni að það svar væri alveg fullgilt og fullnægjandi og ég vildi gjarnan að menn væru ekki að gera sér leik að því að lengja umræðuna með að koma svona eins og þrumur úr heiðskíru lofti undir það þegar umræðu er að ljúka og að fara að fitja upp á sokkunum á ný eins og aldrei hefði nokkur sokkur verið prjónaður.