Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

21. fundur
Þriðjudaginn 15. september 1992, kl. 22:49:10 (788)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Að því er varðar þær tölur sem ég fór með hér áðan þá vil ég að það komi fram að ég hef þær úr dreifbýlisblaðinu Tímanum, að vísu úr viðtali við góðvin framsóknarmanna, Þröst Ólafsson.
    Mér láðist hins vegar að svara þessari spurningu um frystitogarana sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson varpaði til mín áðan og nú hv. þm. Jóna Valgerður. Ég er einfaldlega andvígur því að menn séu að lána í þessum mæli til frystitogaranna. Sú skoðun mín hefur líka komið fram áður opinberlega. Ég er einfaldlega andvígur því og ég vil að menn beiti aðferðum eins og til að mynda veiðigjaldi og líka að takmarka lán til þess að koma í veg fyrir þessa þróun vegna þess að ég held að hún sé hættuleg. Ég held líka að hún skerði þá vaxtarmöguleika sem ég veit að þingheimur allur gerir sér grein fyrir að Íslendingar muni senn fá með aðild Íslands að EES.