Umræða um lagaákvæði er varða samgöngumál

22. fundur
Miðvikudaginn 16. september 1992, kl. 16:00:08 (847)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Herra forseti. Ég skal reyna að lengja ekki umræðuna og heldur ekki að flækja hana. Mér finnst nokkuð óvanalega til orða tekið í frv. og málið allt heldur kynlegt. En hitt er rétt að forseti sagði aldrei þau orð að fleiri hefðu ekki kvatt sér hljóðs sem venja er og hefur verið kvartað undan því að flýtir hafi verið heldur mikill. Nú held ég að við getum öll sæst á það að frv. fari ekki lengra, því verði ekki vísað til nefndar eða lengra en það er komið. Síðan munu hinir vísustu menn sem við höfum hér í þinginu, starfsmenn þingsins og fleira gott fólk, hugleiða málið. Það á ekki að gera meira úr þessum vanda en orðið er því af ærnu er að taka í vanda þjóðarinnar nú um þessar mundir og meiri ástæða til að huga að öðru heldur en þessu orðalagi.