Atkvæðagreiðslukerfi Alþingis

26. fundur
Miðvikudaginn 07. október 1992, kl. 13:34:13 (1113)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Nokkrar umræður fóru fram um atkvæðagreiðslukerfið á síðasta þingi og reyndar í sumar líka. Fundið hefur verið að því að það er ófullkomið og vantar skjáinn sem á að vera með kerfinu og sýna hvernig menn greiða atkvæði. Ég vil vekja athygli forseta á því að um þetta var rætt í sumar þegar verið var að undirbúa þingstörf fyrir veturinn og ég man ekki betur en það hafi verið gefið út að skjáirnir yrðu komnir þegar þing kæmi saman aftur í byrjun október. Eins og menn sjá bólar ekkert á því hér enn og má lesa í fjárlagafrv. að það muni eitthvað dragast. Ég vil því spyrja hæstv. forseta að því hvenær þess megi vænta að atkvæðagreiðslukerfið verði sett upp að fullnustu sem er nauðsynlegt ef það á að vera viðvarandi kerfi á Alþingi.