Embætti dýralæknis á sunnanverðum Vestfjörðum

27. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 10:46:52 (1165)

     Fyrirspyrjandi (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Í lögum nr. 77 frá 1981 er landinu skipt niður í dýralæknisumdæmi. Áttunda umdæmið er Barðastrandarumdæmi. Í því eru Vestur-Barðastrandarsýsla og Múlahreppur sem nú tilheyrir raunar Reykhólahreppi. Þar hefur um tíma ekki setið dýralæknir og hefur þurft að sækja lækni til Ísafjarðar til að sinna nauðsynlegum störfum. Það hefur valdið bændum á þessu svæði ýmsum erfiðleikum og sem dæmi má nefna að þeir hafa safnað saman verkefnum og síðan fengið héraðsdýralækni á Ísafirði til að koma. Síðasta vor hafði einnig verið gengið út frá því meðal bænda í Rauðasandshreppi, sem eru aðallega mjólkurframleiðendur á svæðinu, að fá lækninn í hálfan mánuð frá Ísafirði. Þegar undirbúningi var lokið kom tilkynning frá landbrn. um að það yrði ekki leyft. Ráðuneytið neitaði greiðslu á ferðakostnaði. Bændur greiða annars sjálfir ferðakostnað á milli svæða eða innan sveitarinnar. Þessu var þó kippt í liðinn eftir nokkurt þóf. Bændur una að vonum illa því öryggisleysi sem þetta skapar og vænta þess að sem fyrst verði ráðinn dýralæknir í umdæmið.
    Þess má einnig geta að sláturhús starfar á Patreksfirði og laxeldi er í Tálknafirði. Það er því full þörf á að dýralæknir sé í umdæminu. Dýralæknisbústaður var til staðar í Krossholti á Barðaströnd en var seldur samkvæmt heimild í fjárlögum 1991.
    Því vil ég beina eftirfarandi spurningum til hæstv. landbrh.:
  ,,1. Hve lengi hefur verið laust embætti dýralæknis á sunnanverðum Vestfjörðum?
    2. Hvað hefur verið gert til að fá þangað dýralækni til starfa?
    3. Er fyrirhugað að kaupa dýralæknisbústað á Patreksfirði í stað þess sem seldur var í Krossholti á Baraðströnd?``