Vannýtt orka Landsvirkjunar

27. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 11:07:01 (1172)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Mig langar að taka undir þakkir til fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli. Þetta er að vísu ekkert nýmæli, við sem höfum lengi verið á þingi höfum ábyggilega einu sinni á ári og kannski oft á hverju ári vakið athygli á nauðsyn þess að hagnýta okkar umframorku. Engu að síður er góð vísa aldrei of oft kveðin.
    Ég er ekki viss um að það sé alveg rétt að ekki megi lækka verð á orku sem hvort sem er nýtist alls ekki og rennur fyrir enga greiðslu til sjávar. Ég held að það sé röng hugsun að ekki megi beinlínis lækka verð á orkunni, sérstaklega á tímum eins og nú er þegar allir búast við og horfa upp á atvinnuleysi og hreina afturför, sem við höfum ekki séð áður, í þessu annars ágæta samfélagi. Ég held að núna sé einmitt ástæða til að lækka orkuverð mjög rækilega og nýta þá orku sem ekki er nýtt en þegar hefur verið greitt fyrir.