Fyrirspurnir til ráðherra skv. 7. mgr. 49. gr. þingskapa

30. fundur
Þriðjudaginn 13. október 1992, kl. 13:31:50 (1250)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Áður en umræðan hefst vill forseti minna þingmenn á þær breytingar sem gerðar voru á ákvæðum þingskapa um óundirbúnar fyrirspurnir við upphaf þings í ágúst. Samkvæmt hinum nýju reglum mega fyrirspyrjandi og ráðherra tala þrisvar, tvær mínútur hvor í fyrsta sinn og eina mínútu í annað og þriðja sinn. Tilgangur þessara breytinga var sá að gera þetta fyrirspurnaform knappara, fyrirspurnir og svör styttri og hnitmiðaðri. Engu að síður vill forseti nú eins og jafnan í fyrra hvetja þingmenn til að vera stuttorða, hafa fyrirspurnir sínar skýrar og nýta sér ekki að fullu rétt til að tala þrisvar nema þeir telji brýna nauðsyn til þannig að sem flestir þingmenn komist að á þeim hálftíma sem þessum umræðum er ætlað að standa.
    Þá vill forseti geta þess að ætlast er til að í hvert sinn sé fyrirspurn beint aðeins til eins ráðherra en ekki fleiri. Loks vill forseti biðja þá hv. þm. sem vilja beina fyrirspurn til ráðherra að standa upp þegar umræðan hefst svo að auðveldara sé að raða á mælendaskrá.
    Þeir hæstv. ráðherrar sem viðstaddir eru í dag eru Davíð Oddsson forsrh., Friðrik Sophusson fjmrh., Sighvatur Björgvinsson heilbrrh., Þorsteinn Pálsson sjútv.- og dómsmrh. og Jón Sigurðsson viðsk.- og iðnrh. Hefst nú umræðan.